Fótbolti

Eigum að geta unnið Dani

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir og stelpurnar okkar þurfa sigur í Danmörku á sunnudaginn.
Sara Björk Gunnarsdóttir og stelpurnar okkar þurfa sigur í Danmörku á sunnudaginn. Fréttablaðið/afp
„Æfingarnar eru búnar að vera góðar hérna og það er mikil spenna fyrir leiknum,“ segir Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, í samtali við Fréttablaðið um leikinn gegn Dönum í undankeppni HM 2015 sem fram fer klukkan 11.00 ytra á sunnudagsmorgun.

Leikurinn er gríðarlega mikilvægur fyrir stelpurnar í baráttunni um annað sætið í riðlinum sem gæti á endanum gefið sæti í umspili um farseðil á HM. Fyrsta sætið er ekki lengur möguleiki þar sem Sviss er með 19 stig, tíu stigum meira en Ísland, og Ísrael er óvænt í öðru sæti. Danir eru í þriðja sæti með fimm stig.

„Danska liðið er mjög sterkt. Við höfum spilað við þær áður og bæði unnið og tapað. Þær eru rosalega góðar að halda boltanum sem er þeirra styrkleiki. Þetta er samt lið sem við getum unnið,“ segir Sara Björk.

Þurfa sigur

Alla jafna væri jafntefli við Danmörku á útivelli ekki slæm úrslit en þar sem Ísland þarf að safna nóg af stigum er sigur þýðingarmikill á sunnudaginn.

„Við þurfum þrjú stig og með réttri leikaðferð og réttri pressu þannig að við lokum á þær, þá getum við skorað á þær og unnið leikinn,“ segir Sara Björk sem hefur fulla trú á verkefninu.

„Við höldum áfram að trúa á að HM-draumurinn lifi en til þess að hann haldi áfram að lifa verðum við að fá þrjú stig. Það er lykilatriði í þessu að allur hópurinn hafi fulla trú á að við getum unnið Dani á sunnudaginn. Það hefur verið draumur okkar allra svo lengi að komast á HM. Við viljum virkilega komast þangað.“

Engin betri en Þóra

Sara Björk er fyrirliði sænska meistaraliðsins Rosengård þar sem hún spilar með Þóru B. Helgadóttur landsliðsmarkverði. Þóra er á leið heim til Fylkis í Pepsi-deildinni en erfitt verður að fylla hennar skarð hjá sænska liðinu.

„Þú færð ekkert betri markvörð en Þóru. Það hafa verið forréttindi að æfa og spila með henni því hún er einfaldlega besti markvörður heims í dag,“ segir Sara um markvörðinn.

„Það er virkilega sárt að missa hana úr liðinu og eftirmaður hennar þarf að feta í stór fótspor. Það sem skiptir máli er að hún er ánægð með þetta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×