Erlent

Læknir segir daga Ariels Sharons talda

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Ariel Sharon
Ariel Sharon Mynd/AP
Heilsu Ariels Sharon, fyrrverandi forsætisráðherra Ísraels, heldur áfram að hraka og nú er svo komið að líffæri hans bregðast hvert á fætur öðru. Vart er reiknað með því að hann eigi langt eftir ólifað.

Zeev Rotstein, læknir við Tel Hashomer sjúkrahúsið skammt frá Tel Aviv, segir aðspurður að dagar Sharons séu í raun taldir, þótt læknar reyni enn að gera allt sem hægt er.

Sharon hefur verið í dái í átta ár, eða frá því hann fékk heilablóðfall í byrjun janúar árið 2006. Fjölskylda hans hefur setið við sjúkrabeð hans síðan heilsu hans hrakaði skyndilega nú í vikunni.

Sharon var einn af umdeildari leiðtogum Ísraels. Hann var lengst af herforingi, þekktur fyrir að fara sínar eigin leiðir og láta ekki gagnrýni annarra trufla sig. Hann tók þátt í Súesstríðinu 1956, sex daga stríðinu 1967 og Yom Kippur stríðinu 1973.

Hann var kosinn forsætisráðherra í mars árið 2001, stuttu eftir að hann fór upp á Musterishæðina í Jerúsalem þar sem Al Aksa moskan er. Heimsókn hans þangað þótti ögrandi gagnvart Palestínumönnum, sem stuttu síðar hófu blóðuga uppreisn sem stóð árum saman og kallaði á harkaleg viðbrögð Ísraelshers. Átökin kostuðu þúsundir manna lífið, um þúsund Ísraela og ríflega þrjú þúsund Palestínumenn.

Hann var leiðtogi Likudbandalagsins, eins helsta harðlínuflokks Ísraela og gekk jafnan hart fram gegn Palestínumönnum.

Um mitt ár 2005, hálfu ári áður en hann veiktist, tók ferill hans þó óvænta stefnu þegar hann ákvað einhliða að draga ísraelska hernámsliðið frá Gasasvæðinu. Stuttu síðar sagði hann skilið við Likudflokkinn og stofnaði nýjan miðjuflokk, Kadimaflokkinn. Allt stefndi í að hann myndi vinna kosningasigur og verða forsætisráðherra áfram þegar heilsan brast skyndilega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×