Erlent

Hinn kærði neitar að koma í yfirheyrslur

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Danska vikuritið Se og Hør fékk meðal annars upplýsingar um greiðslukortanotkun Marie og Jóakims prins.
Danska vikuritið Se og Hør fékk meðal annars upplýsingar um greiðslukortanotkun Marie og Jóakims prins. NORDICPHOTOS/AFP
Sá sem er kærður fyrir að hafa lekið upplýsingum um greiðslukortanotkun dansks frægðarfólks til vikublaðsins Se og Hør neitar að mæta í frekari yfirheyrslu hjá lögreglunni nema hann fái upplýsingar um rannsókn útgáfufyrirtækisins Aller Media í málinu.

Michael Juul Eriksen, verjandi hins kærða sem var handtekinn 6. maí síðastliðinn, hefur beðið lögregluna um að kanna hvort hægt sé að fá niðurstöðurnar í innri rannsókn fyrirtækisins sem nú stendur yfir, að því er greint er frá á fréttavef Politiken.

Verjandinn segir eðlilegt að hann og skjólstæðingur hans fái að sjá öll gögnin. Reyni lögreglan ekki að fá gögn innri rannsóknar útgáfufyrirtækisins afhent ætlar hann með málið fyrir rétt.

Sá sem lak upplýsingunum um kreditkortanotkunina var í fyrradag spurður hvort hann vildi láta yfirheyra sig vegna rannsóknar Allers. Hann neitaði. Verjandinn bendir á að útgáfufyrirtækið, sem sjálft er kært, geti nýtt sér gögnin úr eigin rannsókn að vild.

Greint var frá njósnum vikuritsins í bók eftir fyrrverandi blaðamann þess sem kom út um síðustu mánaðamót. Meðal þeirra sem urðu fyrir persónunjósnunum eru Jóakim prins og Marie eiginkona hans auk gamanleikarans Caspers Christensen sem lék í Klovn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×