Innlent

Hafa veitt um 1.300 tonn

Freyr Bjarnason skrifar
Sigurjón Stefánsson og Nökkvi Flosason ánægðir með aflann á bryggjunni á Djúpavogi.
Sigurjón Stefánsson og Nökkvi Flosason ánægðir með aflann á bryggjunni á Djúpavogi. Fréttablaðið/GVA
Strandveiðimenn höfðu í gær veitt rúmlega 1.300 tonn á þeim fjórum svæðum þar sem veiðarnar fara fram hérlendis.

Leyfilegur heildarafli í sumar er 8.600 tonn og er honum skipt niður á mánuði og fjögur svæði. Langmesta eftirsóknin eftir veiðum er á svæði A sem er á norðvesturhorninu, sérstaklega framan af sumri, og hefur rúmlega helmingur af öllum löndunum á strandveiðum í maí verið á því svæði. „Þar er langmest um að vera. Þar eru rúmlega 200 bátar að landa,“ segir Þorsteinn Hilmarsson hjá Fiskistofu.

Alls hafa 504 leyfi verið gefin út fyrir veiðarnar og eru þau sem stendur um 30 til 40 færri en í fyrra. „Það hefur ekki verið mikil fjölgun undanfarna daga. Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því. Sumir eru á grásleppuveiðum núna og vilja klára þær áður en þeir fara í strandveiðar og aðrir vilja klára kvóta fyrst,“ segir Þorsteinn, sem bætir við að veiðin sé í svipuðum skorðum og undanfarin tvö til þrjú ár. „Það eru heldur færri bátar á ferð en aflabrögð eru ágæt.“

Ljósmyndari Fréttablaðsins rakst á þá Sigurjón Stefánsson og Nökkva Flosason, starfsmenn fiskmarkaðs Djúpavogs, með fallega fiska í höndunum á bryggjunni á dögunum. „Þetta er búið að vera ótrúlega gott hjá þeim á þessum strandveiðum og fiskurinn hefur verið mjög stór og fallegur,“ segir Nökkvi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×