Innlent

Sjúkraliðar vilja sömu hækkun og sjúkraliðar hjá ríkinu fengu

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Á hjúkrunarheimili 400 til 500 lögðu niður störf í gær.
Á hjúkrunarheimili 400 til 500 lögðu niður störf í gær. Vísir/Vilhelm
Nær engin hjúkrunarheimili innan Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu munu geta orðið við kröfum Sjúkraliðafélags Íslands og SFR um hærri laun afturvirkt fái þau ekki launabætur frá ríkinu.

Þetta segir Gísli Páll Pálsson, formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og forstjóri Markar hjúkrunarheimilis.

Gísli Páll Pálsson
Sjúkraliðar vilja sömu hækkun og sjúkraliðar hjá ríkinu fengu með jafnlaunaátaki í fyrra, það er 4,8 prósent. Þeir vilja jafnframt 2,8 prósenta hækkun eins og aðrir fá með nýjum samningum.

„Þetta snýst um tugi milljóna króna. Hjúkrunarheimilin verða ekki gjaldþrota en við munum ekki geta borgað út laun ef við fáum ekki launabætur frá ríkinu fyrir samsvarandi tímabil. Sóltún er eina hjúkrunarheimilið sem er með alvöruþjónustusamning við ríkið. Það fær launabætur óháð öllum samningum. Mér þætti ólíklegt að nokkurt annað hjúkrunarheimili gæti gert þetta,“ segir Gísli Páll.

Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélags Íslands, segir það ekki hlutverk starfsmanna stofnananna að sjá um að þær hafi möguleika á að reka sig.

„Ríkisstarfsmenn hafa verið með 4,8 prósentum hærri laun síðan í fyrra. Okkar launakröfur snúast um að fá sambærilega hækkun og jafnlaunaátakið var á sínum tíma og svo hækkunina samkvæmt kjarasamningunum við ríkið nú í ár.“

Kristín Á. Guðmundsdóttir
Kristín kveðst bjartsýn á að samningar náist fyrir fimmtudag. Þá er boðað ótímabundið verkfall sjúkraliða og félaga í SFR á um 20 hjúkrunarheimilum.

Í gær lögðu 400 til 500 starfsmenn niður vinnu á hjúkrunarheimilunum. Gísli Páll segir starfsemina á Mörk hafa gengið ágætlega miðað við aðstæður. „En verði ekki samið fyrir fimmtudag er ég hr æddur um að það geti orðið langt verkfall.“ 

Á vef SÁÁ segir að starfsemi á Vogi, Staðarfelli og Vík muni að óbreyttu stöðvast ef til allsherjarverkfalls kemur. Göngudeildir SÁÁ í Reykjavík og á Akureyri voru lokaðar í gær vegna sólarhrings vinnustöðvunar ráðgjafa og sjúkraliða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×