Innlent

Íslandsmet í fjölda leiðsögumanna

Freyr Bjarnason skrifar
Formaður Félags leiðsögumanna fagnar auknum fjölda leiðsögumanna á Íslandi.
Formaður Félags leiðsögumanna fagnar auknum fjölda leiðsögumanna á Íslandi. Fréttablaðið/Pjetur
Alls verða 107 leiðsögumenn útskrifaðir á þessu ári sem er það mesta hingað til. Þessi mikli fjöldi tengist þeirri aukningu sem hefur verið í ferðaþjónustu á Íslandi.

Aukningin frá síðasta ári nemur um þrjátíu manns, sem er sá fjöldi leiðsögumanna sem Símenntun Háskólans á Akureyri útskrifaði í fyrsta sinn á þriðjudag.

„Þetta er svakaleg aukning,“ segir Örvar Már Kristinsson, formaður Félags leiðsögumanna.

„Síðustu 30 til 40 ár er búið að útskrifa um 1.700 leiðsögumenn og bara núna eru að bætast hundrað við. Það eru reyndar bara 700 í félaginu, sem þýðir að fólk hefur farið í aðrar greinar frekar en að vinna við þetta, aðallega út af laununum.“

Nám leiðsögumanna er tvær til þrjár annir og geta menn núna valið um Háskólann á Akureyri, Háskóla Íslands og Leiðsöguskóla Íslands.

Leiðsögumenn hafi ekki farið varhluta af verkfalli flugmanna hjá Icelandair. Að sögn Örvars Más eru nokkuð margir leiðsögumenn að missa túra vegna þess.

„Þeir hafa hringt og spurt hvernig staða þeirra er og hvernig réttindin eru,“ segir hann og bætir við að lítið sé hægt að gera við þessum tekjumissi þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×