Erlent

Kennaranemar í raungreinum fái skattfría styrki

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Jan Björklund, menntamálaráðherra Svíþjóðar, vill fleiri kennaranema í raungreinum.
Nordicphotos/Afp
Jan Björklund, menntamálaráðherra Svíþjóðar, vill fleiri kennaranema í raungreinum. Nordicphotos/Afp
Sænsk stjórnvöld vilja styrkja kennaranema sem ljúka sérhæfðu námi í raungreinum um 25 þúsund sænskar krónur, sem ekki þarf að greiða skatt af, fyrir hverja grein en þó ekki hærri styrk en 75 þúsund krónur samtals. Tilgangurinn er að fá fleiri kennaranema í þessar greinar.



Formaður Sænska kennarasambandsins, Bo Jansson, segir þetta sýna hversu brýnt málið sé. Sambandið hafi varað við að vissar greinar væru í hættu vegna skorts á kennurum með réttindi.



En kennarasambandið segir jafnframt að stjórnvöld þurfi að skoða málið í heild. Aðgerðirnar megi ekki leiða til atvinnuleysis í öðrum greinum. Til að auka vægi kennarastarfsins almennt þurfi breytingar á atriðum eins og launum og vinnuaðstæðum.

Sænsk stjórnvöld vilja einnig fjölga plássum fyrir háskólanema um 10 þúsund, þar af plássum fyrir kennaranema um níu þúsund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×