Erlent

ESB undirbýr málaferli vegna sölu Möltu á ríkisborgararétti

Brjánn Jónasson skrifar
Framkvæmdastjórn ESB telur það skapa hættu fyrir önnur aðildarríki ESB selji Malta ríku fólki ríkisborgararétt.
Framkvæmdastjórn ESB telur það skapa hættu fyrir önnur aðildarríki ESB selji Malta ríku fólki ríkisborgararétt. Nordicphotos/AFP
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) býr sig undir málaferli gegn stjórnvöldum á Möltu vegna ákvörðunar þeirra um að selja ríkum einstaklingum ríkisborgararétt.

Malta hyggst bjóða vellauðugu fólki að kaupa ríkisborgararétt fyrir 650 þúsund evrur í reiðufé, auk 150 þúsund evra sem eyða þarf í fjárfestingu á Möltu. Þetta samsvarar samtals tæpum 126 milljónum króna. Þetta hefur lagst illa í stjórnvöld í öðrum ríkjum ESB, þar sem ríkisborgararéttur í einu ríki veitir víðtæk réttindi í öllum ríkjum sambandsins.

Rök framkvæmdastjórnarinnar eru þau að með því að selja ríkisborgararétt séu þau í raun að selja réttinn til að búa í öllum aðildarríkjunum 28, að því er fram kemur á fréttavefnum EU Observer. Það skapi áhættu fyrir hin aðildarríkin ef stjórnvöld á Möltu gæti ekki nægilega að því að koma í veg fyrir að glæpamenn fái ríkisborgararétt með þessum hætti.

Framkvæmdastjórnin hyggst reyna að koma í veg fyrir þetta á grundvelli greinar 4.3 í sáttmálanum um Evrópusambandið. Talið er að stjórnvöld á Möltu gætu talist brotleg við það ákvæði sem segir að ríki skuli vera einlæg í samvinnu sinni.

Þetta er nokkuð önnur afstaða en framkvæmdastjórn ESB lét uppi í nóvember í fyrra. Þá taldi Framkvæmdastjórn ESB skýrt að Evrópudómstóllinn hafi ítrekað staðfest að ríki ráði því sjálf hverjum þau veiti ríkisborgararétt, og að ESB hafi engan rétt til að koma í veg fyrir að Malta selji ríkisborgararétt sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×