Erlent

Vilja að Snowden beri vitni

Eva Bjarnadóttir skrifar
Edward Snowden
Edward Snowden
Evrópuþingið hefur boðið uppljóstraranum Edward Snowden að vitna um uppljóstranir sínar í tengslum við rannsókn þingnefndar á eftirlitsstarfsemi Bandaríkjanna. Vitnaleiðslan færi fram í gegnum fjarfundabúnað. Bandarískur þingmaður varar við afleiðingunum ef af verður.

Meirihluti nefndar Evrópuþingsins um borgaraleg réttindi studdi tillögu um að senda Snowden boð um að bera vitni fyrir nefndinni. Í drögum að niðurstöðu rannsóknar nefndarinnar kemur fram að eftirlitsaðgerðir Bandaríkjanna og Bretlands virðist vera ólöglegar og að aðgerðir þeirra hafi haft djúpstæð áhrif á traust milli ríkja, sem hingað til hafi litið á sig sem bandamenn.

Ekki eru allir á eitt sáttir um ákvörðun nefndarinnar. Hópur íhaldsmanna á Evrópuþinginu hefur lýst sig andsnúinn ákvörðuninni, en flestir þingmanna hópsins eru frá Bretlandi, Þeirra á meðal er forsætisráðherra Bretlands, David Cameron.

Í Bandaríkjunum hefur repúblikaninn Mike Rogers, formaður nefndar bandaríska þingsins sem fjallar um eftirlitsstarfsemi ríkisins, varað Evrópuþingið við því að ákvörðunin geti skaðað samstarf Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Ekki liggur fyrir hvort Snowden þekkist boðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×