Erlent

Janúar er skilnaðarmánuðurinn

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Ekki berast fleiri umsóknir um skilnað hér á landi í janúar en í öðrum mánuðum.
Ekki berast fleiri umsóknir um skilnað hér á landi í janúar en í öðrum mánuðum. Fréttablaðið/Pjetur
Janúar er sá mánuður ársins sem flestir sækja um skilnað í Stokkhólmi, samkvæmt könnun sem sænska blaðið Dagens Nyheter hefur gert. Skilnaðarumsóknirnar eru fimm til fimmtíu prósentum fleiri í janúar en í öðrum mánuðum. Í janúar í fyrra sóttu 877 um skilnað, 682 í júní en 558 í desember.

Dagens Nyheter hefur það eftir Christinu Hermanrud, sálfræðingi og sérfræðingi í fjölskyldutengslum, að náin samvera um jólahátíðina kunni að reyna á sambönd sem þegar eru komnir brestir í. Hún segir að samtímis séu menn oft með sérstakar væntingar til frísins. Komi þá upp vandamál sé auðvelt að einblína á vandann sem var fyrir.

Samkvæmt upplýsingum frá Sýslumanninum í Reykjavík er ekki hægt að merkja að fleiri umsóknir um skilnað berist til embættisins í janúar en öðrum mánuðum. Í janúar í fyrra bárust 40 ný skilnaðarmál til Sýslumannsins í Reykjavík. Í júní barst 41 skilnaðarumsókn en 55 í desember. Alls bárust 423 skilnaðarumsóknir til embættisins í fyrra.

Í Bretlandi er fyrsti vinnudagurinn í janúar kallaður D-dagurinn, það er Divorce-day eða skilnaðardagur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×