Erlent

Kínastjórn lokar á fréttir af skattaskjólum

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Kínverskir ráðamenn.
Kínverskir ráðamenn. Nordicphotos/AFP
Vestrænir blaðamenn hafa birt upplýsingar um að kínverskir ráðamenn hafi í stórum stíl komið peningum í aflandsskjól. Frá þessu er skýrt á vefsíðum Alþjóðasamtaka rannsóknarblaðamanna, ICEJ og í dagblöðum á borð við The Guardian.

Kínastjórn hefur hins vegar brugðist snarlega við og lokað á fréttaflutning af þessu á netinu, þannig að íbúar í Kína verða einskis vísari.

Ekki síst eru það hinir yngri og upprennandi ættingjar helstu leiðtoga kínverska Kommúnistaflokksins sem virðast stórtækastir í þessu. Þar á meðal er nefndur til sögunnar mágur núverandi forseta Kína og tengdasonur fyrrverandi varaforseta landsins.

Upplýsingarnar eru fengnar úr miklu magni af skjölum frá tveimur fjármálafyrirtækjum á hinum Bresku jómfrúareyjum, en blaðamenn hjá ICEJ komust yfir þessi skjöl fyrir tveimur árum og hafa síðan unnið að rannsóknum á þeim ásamt blaðamönnum hjá The Guardian og fleiri fjölmiðlum.

Upplýsingarnar um þetta athæfi kínverskra ráðamanna er það nýjasta, sem kemur út úr rannsókn á þessum bankaskjölum.

Þar kemur einnig fram að fjölmargir stórbankar á Vesturlöndum hafa gegnt lykilhlutverki við að fá viðskiptamenn sína til að notfæra sér skattaskjól á svonefndum aflandsmiðstöðvum. 

Þar eru til nefndir bankar og fjármálafyrirtæki á borð við UBS, Credit Suisse, PricewaterhouseCoopers og Deutsche Bank.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×