Erlent

Ekki til umræðu að Assad hætti

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Walid al Moallem utanríkisráðherra ásamt öðrum fulltrúum Sýrlands á ráðstefnunni.
Walid al Moallem utanríkisráðherra ásamt öðrum fulltrúum Sýrlands á ráðstefnunni. Nordicphotos/AFP
Staða Bashar al Assads Sýrlandsforseta kom til umræðu strax við upphaf Sýrlandsráðstefunnar í Sviss í morgun.

Walid al Moallem, utanríkisráðherra Sýrlands, sagði ekki koma til greina að afsögn Assads yrði partur af friðarsamningum.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafði þá nýlokið máli sínu þar sem hann sagði útilokað að Assad yrði aðili að bráðabirgðastjórn, sem lagt hefur verið til sem lausn á deilunni.

Kerry sagði að Assad hafi glatað öllum trúverðugleika eftir að hafa ráðist gegn eigin þjóð og engin leið verði til að bæta úr því.

Átökin í Sýrlandi, sem hófust fyrir nærri þremur árum, hafa nú kostað meira en 130 þúsund manns lífið.

Á ráðstefnunni, sem hófst í morgun í Montreaux í Sviss, eru saman komnir fulltrúar sýrlensku stjórnarinnar og sýrlenskra stjórnarandstæðinga, ásamt fulltrúum Bandaríkjanna, Rússa, Sameinuðu þjóðanna, Evrópusambandsins og fjölmargra annarra ríkja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×