Erlent

„Blóðugur október“ fyrir friðargæslu

Samúel Karl Ólason skrifar
61 friðargæsluliði hefur fallið í Darfur frá árinu 2007.
61 friðargæsluliði hefur fallið í Darfur frá árinu 2007. Vísir/AFP
Þrír friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna féllu í árás vígamanna í Darfur héraði í Súdan í dag. Ban Ki-moon fordæmdi árásina í dag. Hann sagði október hafa verið blóðugan fyrir friðargæsluliða. Fjórtán hafa fallið í Darfur, Mali og Mið-Afríkulýðveldinu í mánuðinum.

Hermennirnir voru frá Eþíópíu og stóðu vörð við vatnsból þegar ráðist var á þá, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Yfirmaður friðargæsluverkefnisins í Darfur sagði það vera stríðsglæp að ráðast á friðargæsluliða. Hann kallaði eftir því að yfirvöld í Súdan myndu bregðast við árásinni.

Uppreisnarhópar hafa barist í meira en áratug í Darfur en ástandið hefur versnað töluvert á þessu ári. Alls hafa 61 friðargæsluliði fallið í héraðinu síðan verkefnið hófst árið 2007.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×