Erlent

Rekin úr verslun vegna blindrahunds

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP
Blind kona var rekin úr verslun Tesco vegna þess að hún var þar með blindrahund. Þrátt fyrir að aðrir viðskiptavinir reyndu að grípa inn í sagði starfsfólkið henni að fara út og koma aldrei aftur. Tesco hefur beðist afsökunar og segir að „augljóslega hafi þetta ekki átt að gerast.“

BBC segir frá því að Maya Makri hafi flutt til London vegna náms tíu dögum áður en atvikið átti sér stað. Hún segir að hundurinn Jemma, sem hún hefur átt í sex ár, hafi verið í sérmerktu vesti og á ólinni hafi staðið að um blindrahund hafi verið að ræða.

„Þegar ég kom að kassanum fann ég óþægilegu andrúmslofti. Þá byrjaði afgreiðslumaðurinn að kalla að gæludýr væru ekki leyfð. Ég sagði að þetta væri blindrahundur, en þá komu tveir afgreiðslumenn til viðbótar sem fóru líka að öskra,“ segir Maya.

Hún segir þá hafa verið mjög dónalegir. Aðrir viðskiptavinir sögðu að hún mætti vera með hund en afgreiðslufólkið stóð fast á sínu.

Maya hafði valið þessa verslun sérstaklega vegna þess að hún þurfti ekki að ganga yfir götu til að komast í hana. Hún er mjög hneyksluð vegna atviksins og hún segist hafa haldið að London væri staður þar sem öllum væri tekið jafnt.

Hún hefur fengið 20 punda gjafabréf frá Tesco, en fyrirtækið segir að blindrahundar séu leyfilegir í verslunum keðjunnar og búið sé að minna starfsfólkið á það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×