Erlent

Keypti 99 iPhone síma handa kærustu sem sagði nei

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Myndin var birt á vefnum Weibo.
Myndin var birt á vefnum Weibo.
Kínverskur maður keypti 99 iPhone-síma, raðaði þeim upp í hjarta og bað kærustu sinnar. Það dugði ekki til og því má segja að laun mannsins í tvö ár hafi farið fyrir lítið.

Hér er önnur mynd sem birtist á Weibo.
Erlendir miðlar hafa greint frá málinu og birt myndir sem upphaflega voru settar á kínverska samfélagsmiðilinn Weibo. Til dæmis fjallaði fréttastofa Yahoo um málið, en í frétt miðilsins kemur fram að maðurinn sé forritari og hafi viljað biðja konunnar sinnar í tilefni þess að í dag er hátíðisdagur í Kína; dagur hinna einhleypu. Hann vildi leggja á hana hnapphelduna áður en dagurinn gengi í garð og bar því upp bónorðið í gær. 

99 símar af tegundinni iPhone 6 eru langt frá því að vera ódýrir. Á vefnum The Nanfang Insider kemur fram að símarnir hafi kostað rúmar tíu milljónir samanlagt. En þessar dýru gjafir dugðu ekki til; konan vildi ekki ganga í hjónaband og gat því haldið upp á dag einhleypra eins og á að gera það; ein síns liðs.

Aðrir notendur Weibo hafa lagt til að maðurinn setji símana í sölu. Mikil eftirspurn er eftir iPhone 6 símum í Kína og ætti hann því ekki að eiga í erfiðleikum með að selja þá. Margir notendur Weibo sögðu athæfi mannsins hafa verið heimskulegt og einn spurði hann hversu mörg nýru hann hefði selt fyrir símann.



Fyrir þá sem vilja vita af hverju 11. nóvember er dagur einhleypra í Kína, er nóg að horfa á dagsetninguna. Hún er 11/11 og eins og flestir vita er einn sú tala sem er hvað mest einmana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×