Erlent

Skelfilegur heimur stúlkna í glæpagengjum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/getty
Ný ensk rannsókn afhjúpar heim ungra stúlkna sem leiðst hafa inn í heim glæpagengja og eiturlyfja og þá misnoktun sem þær verða fyrir vegna þessa.

Stúlkurnar eru jafnan kallaðar „þær ósýnilegu“ því meðlimir gengjanna geri það nánast ómögulegt að hafa uppi á stúlkunum um leið og búið sé að samþykkja þær í gengin. Guardian greinir frá.

Stúlkunum er nauðgað ítrekað, þeim er ógnað og verða þær fyrir miklu ofbeldi. Þeim er nánast gert ókleift að komast úr þessum heim ofbeldis og glæpa og sökum ótta og vonleysis komast þær oft aldrei til baka aftur.

Þær eru nýttar sem tálbeitur og burðardýr eiturlyfja því lögregla er sögð leggja meiri áherslu á að leita á karlmönnum, og staðfesti rannsóknin það. Konur voru í miklum minnihluta þeirra sem leitað var á, eða um 3-6%. Skólarnir eru sagðir líta til hliðar því þetta komi óorði á skólana.

„Ég hef alltaf sagt að lögreglan þurfi að leita á stúlkum. Það er mikilvægt vegna þess að það eru þær sem bera eiturlyfin. Þegar þú sérð unga stúlku með barnavagn, þá sérðu bara unga stúlku með barnavagn. En ef þú tekur barnið úr vagninum og þá sérðu hvað leynist þar í raun og veru.“  segir Jennifer Blake, forstjóri Safe 'n' Sound, góðgerðarsamtaka ungs fólks í Peckham í Suður-London.

Í kjölfar skýrslunnar er þrýst á stjórnvöld í Bretlandi að grípa í taumana en rannsóknin sýnir að rúmlega 2.400 börn hafa orðið fórnarlömb glæpagengja. Um 16.500 önnur eru í hættu á að verða fórnarlömb þeirra verði ekkert gert í málunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×