Erlent

Óásættanlegt að breyta orðalaginu

Jón Steindór Valdimarsson segir að mótmælendurnir á Austurvelli séu gott þversnið af þjóðinni.
Jón Steindór Valdimarsson segir að mótmælendurnir á Austurvelli séu gott þversnið af þjóðinni. Fréttablaðið/Stefán
Jón Steindór Valdimarsson, formaður Já Ísland, er langt í frá hrifinn af hugmyndum Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um þá kosti að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið eða hafa áframhaldandi viðræðuhlé.

„Þetta er algjörlega ótækt og óásættanlegt og verður aldrei samþykkt,“ segir hann, aðspurður. „Þessar hugmyndir eru ekki í nokkru einasta samræmi við það sem menn sögðu fyrir kosningar.“

Í gær höfðu yfir 51.300 manns, eða yfir 21 prósent kosningabærra manna, tekið þátt í undirskriftasöfnun á síðunni Thjod.is um að þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin um hvort aðildarviðræðum verði haldið áfram eða ekki.

„Þarna er framsetningin mjög einföld og skýr. Ég vara stjórnmálamenn, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu við því að ætla að semja um eitthvað annað. Þá þurfa þeir að semja við þessar 51.300 manneskjur sem eru búnar að skrifa undir mjög ákveðna áskorun,“ segir Jón Steindór. „Menn verða að vara sig, þetta er ekki fyrir Alþingi til að leika sér með. Þetta er ekkert pólitískt „geim“ heldur mjög skýr og einföld krafa og hana eiga þeir að virða.“

Hann kveðst vera ánægður með þær þúsundir manna sem hafa haft uppi mótmæli á Austurvelli undanfarnar vikur. „Ég er sérstaklega ánægður með það líka að þetta er mjög gott þversnið af þjóðinni. Þarna er alls konar fólk á öllum aldri með alls konar pólitískar skoðanir sem er einhuga um þessa kröfu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×