Erlent

Verjandi Pistorius flytur lokaræðu sína

Randver Kári Randversson skrifar
Oscar Pistorius í réttarsalnum í dag.
Oscar Pistorius í réttarsalnum í dag. Vísir/AFP
Málflutningi í réttarhöldunum yfir Oscar Pistorius lýkur í dag. Barry Roux, verjandi Oscars Pistorius, sagði í lokaræðu sinni í morgun að vegna fötlunar sinnar hafi Pistorius alist upp í ótta, og þurft að  venjast þeirri hugsun að geta ekki flúið ef hætta steðjaði að. Þetta hafi valdið honum miklu óöryggi.

Greint er frá því á vef BBC að Roux hafi haldið því fram að sönnunargögnum á vettvangi, hafi verið spillt, þar sem vifta og sæng í íbúð Pisorius hafi verið færð úr stað. Hann sagði að í raun hefði Pistorius átt að vera ákærður fyrir manndráp af gáleysi en ekki fyrir morð, fyrir að hafa skotið kærustu sína Reevu Steenkamp til bana.

Saksóknarinn í málinu, Gerrie Nel hélt því fram í lokaræðu sinni í gær að ekki verði hjá því komist að dæma Pistorius fyrir morð. Hann sagði framburð Pistoriusar ótrúverðugan, þar sem margt stangaðist á.

Pistorius hefur viðurkennt að hafa skotið Steenkamp, þann 14. febrúar á síðasta ári en hefur ávallt neitað því að hafa banað henni af yfirlögðu ráði, þar sem hann hafi haldið að hún væri innbrotsþjófur. Verði hann fundinn sekur um morð gæti hann átt lífstíðarfangelsi yfir höfði sér.    


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×