Innlent

Ökumaður ákærður fyrir manndráp af gáleysi

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Slysið gerðist á þessum slóðum. Myndin er ekki af slysstað.
Slysið gerðist á þessum slóðum. Myndin er ekki af slysstað.
Karlmaður á sjötugsaldri hefur verið ákærður af lögreglustjóranum á Akureyri fyrir manndráp af gáleysi, líkamsmeiðingar af gáleysi og umferðarlagabrot. RÚV greinir frá.

Manninum er gefið að sök að hafa ekið of hratt miðað við aðstæður á Ólafsfjarðarvegi í mars og tekið fram úr snjóruðningstæki án þess að gæta nægilegrar varúðar. Helgast það af ákvæðum í umferðarlögum þar sem segir að ekki megi aka fram úr bíl ef hætta sé á að ökumaður valdi öðrum hættu, tjóni eða óþægindum.

Slysið varð með þeim hætti að kona á fertugsaldri, Zofia Gnidziejko, beið bana þegar tveir bílar skullu saman úr gagnstæðri átt.  Hún lét eftir sig eiginmann og tvö börn, 4 og 10 ára. Ökumaður bílsins og annar farþegi hlutu mikla áverka víðs vegar um líkamann. 

Ekkillinn gerir einkaréttarkröfur á hendur manninum og fer fram á að hann verði dæmdur til að greiða sér og börnum sínum níu milljónir króna í miskabætur, eða þrjár milljónir króna á hvert þeirra. Málið var þingfest í Héraðsdómi Norðurlands eystra síðasta mánudag.


Tengdar fréttir

Harður árekstur vegna framúraksturs

Pallbíl var ekið framan á fólksbíl nærri Dalvík í morgun. Ökumaður pallbílsins var að taka fram úr snjómoksturstæki.

Ólafsfjarðarvegur opnar aftur eftir slys

Ólafsfjarðarvegur opnar aftur innan klukkustundar, en honum var lokað í morgun vegna slyss. Slæm færð er víða á vegum landsins, til dæmis er Siglufjarðarvegur lokaður vegna snjóflóðahættu.

Slys á Ólafsfjarðarvegi

Slys varð á Ólafsfjarðarvegi við Selárbakka laust fyrir klukkan átta í kvöld þegar tveir bílar skullu saman úr gagnstæðri átt.

Banaslysið á Ólafsfjarðarvegi rannsakað sem sakamál

Banaslys, sem varð á Ólafsfjarðarvegi nýverið er nú rannsakað sem sakamál. Slysið varð með þeim hætti að kona beið bana þegar tveir bílar skullu saman, en annar þeirra var að aka fram úr snjóruðningsbíl. Frá þessu er greint á vefnum Akureyri vikublað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×