Erlent

Fékk sms frá látinni ömmu sinni sem hafði verið grafin með símanum sínum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Símafyrirtækið O2 hafði látið annan notanda hafa gamla númer ömmunnar og sá svaraði skilaboðum barnabarnsins.
Símafyrirtækið O2 hafði látið annan notanda hafa gamla númer ömmunnar og sá svaraði skilaboðum barnabarnsins. Vísir/Getty
Sheri Emerson brá heldur betur í brún þegar hún fékk sms úr númeri ömmu sinnar sem dó fyrir þremur árum og hafði verið grafin með símanum sínum, ásamt nokkrum öðrum af sínum uppáhaldshlutum.

Emerson hafði reglulega sent sms í síma ömmu sinnar þar sem það hafi veitt henni ákveðna huggun. Hún átti þó alls ekki von á að fá svarið sem hún fékk á dögunum. Í því stóð:

„Ég vaki yfir þér og það mun allt verða betra. Haltu bara áfram.“

Emerson segir í samtali við BBC að henni hafi verið verulega brugðið við að fá skilaboðin. Emerson hringdi í númerið og karlmaður svaraði. Í ljós kom að símafyrirtækið, O2, hafði látið annan notanda fá símanúmer ömmunnar og hafði hann svarað smsi Emerson.

Talsmaður O2 sagði fyrirtækið harma atvikið. Samband hefði verið haft við fjölskylduna og hún beðin afsökunar á öllum þeim óþægindum sem málið kann að hafa valdið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×