Erlent

Geta losað sig við allt að milljón spillta embættismenn

Atli Ísleifsson skrifar
Petro Pórósjenkó Úkraínuforseti.
Petro Pórósjenkó Úkraínuforseti. Vísir/AFP
Petro Pórósjenko Úkraínuforseti hefur undirritað lög sem ætlað er að hreinsa til í embættismannakerfi Úkraínu. Með lögunum verður gert mögulegt að reka allt að milljón embættismenn og aðra opinbera starfsmenn sem ráðnir voru meðal annars í stjórnartíð Viktors Janúkóvitsj, forvera Pórósjenkó í starfi.

Spilling var landlæg í Úkraínu löngu áður en Janúkóvitsj tók við forsetaembættinu árið 2010, en í frétt NRK kemur fram að flestir séu sammála um að vandamálið hafi aukist í stjórnartíð Janúkóvitsj.

Spillingarvísitala alþjóðlegra samtaka gegn spillingu (Transparency International) sýnir að Úkraína mælist í 144. sæti listans, með löndum á borð við Nígeríu og Kamerún. Því neðar sem lönd eru á listanum, því spilltari eru þau. Samkvæmt listanum er Úkraína spilltasta ríki Evrópu, en einungis 28 ríki heims eru neðar á listanum.

Úkraínsk stjórnvöld stefna að því að sækja um ESB-aðild innan sex ára og er ljóst að mikið þarf að gera til að landið uppfylli skilyrði þess að fá stöðu umsóknarríkis.

Að sögn bæði forsætisráðherra og dómsmálaráðherra landsins getur allt að milljón embættismönnum verið sagt upp samkvæmt lögunum sem tóku gildi í gær.

Spilltir embættismenn allt frá Sovéttímanum, gamlir liðsmenn KGB og Kommúnistaflokksins, geta átt von á því að fá reisupassann. „Þessi lög eru tuttugu árum of seint á ferðinni, en betra seint en aldrei,“ segir forsætisráðherrann Arsenij Jatsenjuk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×