Erlent

Poppy er elsta kisa heims og hún elskar KFC

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Poppy er 24 ára gömul, elsta kisa í heimi.
Poppy er 24 ára gömul, elsta kisa í heimi.
Þetta er Poppy sem er nú formlega orðin elsta kisa heims, samkvæmt Heimsmetabók Guiness. Hún fæddist í febrúarmánuði árið 1990, í bænum Bournemouth á Englandi.

Eigendur Poppy vita í raun ekki af hverju hún hefur þraukað svona lengi, en segja leyndarmálið líklega felast í mataræðinu. Poppy finnst best að borða kjúkling frá KFC, en henni þykir líka gott að borða Kebab og fisk og franskar - hinn vinsæla skyndabita þar í landi. En eigendur hennar segjast gefa henni mikið af þurrmat með, hann sé mun heilsusamlegri en skyndibitinn.

Poppy er reyndar orðin blind og heyrnarlaus. Eigendur hennar segja hana þó enn í fullu fjöri; Hún stjórni í raun heimilislífinu. Hún þykir bæði frek og stjórnsöm.

„Poppy er frábær köttur en hún getur verið svolítið grimm stundum,“ segir Jackqui West, eigandi hennar og bætir við: „Ef einhverjir kettir reyna að abbast upp á hana er hún vís að reyna að bíta bara af þeim eyrað.“

Áður en Poppy var úrskurðuð elsti köttur heims bar hin 23 ára læða Pinky, frá Kansas í Bandaríkjunum, titilinn með stolti. Hún dó í fyrra. Elsti köttur allra tíma er aftur á móti Creme Puff, fress frá Texas í Bandaríkjunum. Hann dó 38 ára og 3 daga. Meðalaldur katta er um 15 ár.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×