Innlent

Maðurinn sem stal sjálfum sér

Birta Björnsdóttir skrifar
Ævintýralegt lífshlaup Hans nokkurs Jónatans er efniviður væntanlegrar ævisögu sem mannfræðingurinn Gísli Pálsson ritar.

„Hann var þræll fæddur á St. Croix í Vestur Indíum, 1784 á plantekru sem var í eigi danskra sykurbaróna. Hann ólst upp að hluta til á St. Croix en fluttist ungur að árum til Danmerkur með eigendum sínum og fjölskyldu,“ segir Gísli.

En saga Hans Jónatans endaði ekki þar, eftir að hafa tapað málaferlum gegn eigendum sínum í frægum réttarhöldum í Danskri réttarsögu stakk hann af og endaði hér á landi.

„Líklega í gegnum tengsl við danska verslunarmenn sem voru við Djúpavogsverslun. Hann settist þar að, hvort sem það var upphaflega ætlunin, og bjó þar til dauðadags.“

Og þaðan er titill bókarinar kominn. Bókin kemur út í haust, en hún ber titilinn Hans Jónatan: Maðurinn sem stal sjálfum sér.

„Dramað er að hluta til það að hann er fæddur þræll og sjálfstæðibarátta hans sem unglings snýst að miklu leyti um það losna úr hlekkjunum. Dómsmálinu lauk með því að eigandi hans festi í sessi eignarhaldið yfir honum. En hann eignaðist sjálfan sig á ný með því að stinga af. Hann stal sjálfum sér,“ segir Gísli.

„Það er mjög margt í þessari sögu sem heillaði mig, menningarárekstrar, heimsveldið og furðuleg tengsl milli St. Croix og Íslands í gegnum Danmörku. Og svo auðvitað litarhaft og kynþáttur. Hann lítur öðruvísi út en aðrir Íslendingar. Það má segja að þetta sé fyrsti litaði maðurinn sem settist að á Íslandi á síðari tímum. Það vekur svo upp spurningar um hvernig fólk bregst við þeim sem eru öðruvísi og hvað það er að vera öðruvísi.“

Svartur í sumarhúsum

„Það er ekkert sem bendir til þess að hann hafi mætt mótstöðu vegna kynþáttar eða annars. Þvert á móti var hann vinsæll verslunarmaður og fór af honum gott orð. Hann kvæntist glæislegri konu og inn í góða ætt og allar sögur sem til eru af honum eru mjög jákvæðar,“ segir Gísli.

„En viðtöl við afkomendur benda til þess að barnabörn og fleiri hafi fundið fyrir mótlæti af þessum sökum. Í sjálfstæðisbaráttunni áttu allir að vera hreinir og norrænir og sumir af afkomendum fóru dult með þennan uppruna. En það er löngu búið í dag og afkomendur Hans Jónatans áhugasamir um uppruna sinn.“

Gísli segir að saga Hans Jónatans annars vegar og svo afkomenda hans hinsvegar megi að vissu leyti heimfæra upp á sögu og þróun kynþáttahyggju í heiminum.

„Saga Hans Jónatans segir töluvert um viðhorf í danska stórveldinu á sínum tíma, um örlög litaðra og svartra. Einnig endurspeglar þetta sveiflur í viðhorfum Íslendinga til fólks sem talið er öðruvísi, hvernig sem það er svo skilgreint,“ segir Gísli.

Hann segir að saga Hans Jónatans hafi ratað til sín fyrir hálfgerða tilviljun, eins og svo margt annað.

„Ég sá um hann sjónvarpsmynd fyrir mörgum árum og einhvernvegin lét þessi saga mig ekki í friði. Ég hef verið að sanka að mér gögnum um sögu hans og setið svo við skriftir undanfarin tvö ár. Það er mjög margt í þessarri sögu sem heillaði mig.“

Bókin um Hans Jónatan, mannin sem stal sjálfum sér kemur út í haust, en þá eru 230 ár liðin frá fæðingu hans. Einnig er fyrirhugðuð sýning á Djúpavogi þar sem Hans bjó og starfaði og þá er í bígerð heimildarmyndin Svartur í Sumarhúsum, sem fjallar um ævintýralegt lífshlaup Hans Jónatans, þrælsins sem varð verslunarmaður á Djúpavogi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×