Erlent

30 prósent dauðsfalla af völdum krabbameins tengjast reykingum

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
VÍSIR/GVA
Ungar konur sem reykja gætu verið í meiri hættu að fá brjóstakrabbamein samkvæmt nýjum rannsóknum frá rannsóknarhópi í Seattle í Bandaríkjunum. Niðurstaða rannsóknarinnar er að konur sem reykt hafi í að minnsta kosti 10 ár og eru á aldrinum 20 til 44 ára séu í meiri hættu á að fá brjóstakrabbamein en aðrar konur.

Talsvert hefur verið fjallað um málið í erlendum fjölmiðlum í dag og í gær. Helgi Sigurðsson, prófessor og yfirlæknir í krabbameinslækningum á Landspítalanum, segir að rannsóknin hafi mjög veika sönnunarbyrði ef svo megi að orði komast.

Um sé að ræða svokallaða faraldsfræðilega rannsókn þar sem tilfellin eru borin saman við viðmið og reynslan sýni að slíkar rannsóknir séu mjög veik vísbending í besta falli. Eins og fram komi í fréttunum af málinu hafi rannsóknin vakið meiri athygli hjá leikmönnum en læknum og áhugamönnum.

Rannsóknin sé frekar ákall til vísindasamfélagsins að skoða betur og velta því fyrir sér hvort ungar konur sem reykt hafi að staðaldri séu í meiri hættu en aðrar á því að fá brjóstakrabbamein.

Helgi segir að hingað til hafi ekki verið sýnt að reykingar hafi áhrif á brjóstakrabbamein en reykingar hafi þó áhrif á fullt af öðrum krabbameinum. Meltingarfærin og þvagblaðran eru í sérstakri hættu en þar kemst tóbakið í snertingu við slímhimnuna. Lungnakrabbamein er algengast krabbameina meðal reykingafólks, þar á eftir krabbamein í þvagblöðru og síðan krabbamein í meltingarveginum eins og hann leggur sig, þar með talið brisi.

„Enginn áhættuþáttur í umhverfinu hefur nálægt því eins krabbameinsvaldandi áhrif og reykingar,“ segir Helgi en um 30 prósent dauðsfalla af völdum krabbameins tengjast reykingum beint. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×