Innlent

Uggandi yfir atvinnuástandi á Flateyri

Sveinn Arnarsson skrifar
Byggðastofnun hefur auglýst samstarf um 300 tonna sértækan byggðakvóta.
Byggðastofnun hefur auglýst samstarf um 300 tonna sértækan byggðakvóta.
Smábátasjómenn á Flateyri hafa sent Byggðastofnun bréf þar sem þeir óska eftir samstarfi um úthlutun sérstaks byggðakvóta til vinnslu í byggðarlaginu. Formaður íbúasamtakanna á Flateyri vonast eftir breiðri samstöðu um veiðar og vinnslu, Flateyri til heilla.

Forsaga málsins er að Arctic Oddi hætti bolfiskvinnslu á Flateyri. Fyrirtækið var með samning um sértækan byggðakvóta frá Byggðastofnun og hefur hann verið auglýstur samkvæmt lögum. Smábátasjómenn eru hræddir um að sértæki byggðakvótinn gæti sett staðbundna útgerð í ákveðna óvissu.

Guðmundur Björgvinsson, formaður íbúasamtaka Flateyrar, vonar að samvinna aðila á svæðinu geti styrkt búsetuskilyrði íbúa og tryggt atvinnuöryggi á staðnum. „Markmið Byggðastofnunar er að tryggja vinnslu á Flateyri og efla þannig byggðina. Því skiptir það miklu máli að breið sátt náist meðal allra aðila sem sinna veiðum frá Flateyri að vera ekki útundan,“ segir Guðmundur. Hann telur einnig hættulegt ef eitt fyrirtæki verði of ráðandi í litlu sveitarfélagi. „Að mínu mati er þessi sértæki byggðakvóti, sem Byggðastofnun gerir samning um við fyrirtæki, að sanna sig, að hann geti skipt sköpum fyrir smærri byggðalög. Við þurfum bara að tryggja að sú staða komi ekki upp að aðeins eitt fyrirtæki geti staðið í útgerð á svæðinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×