Erlent

Heimila olíuleit á griðastað sjaldgæfustu höfrungategundar í heiminum

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Maui höfrungurinn er sá sjaldgæfasti í heiminum.
Maui höfrungurinn er sá sjaldgæfasti í heiminum. Mynd/Careofthewild
Yfirvöld á Nýja-Sjálandi, hafa heimilað olíu og gasleit á 3000 ferkílómetra svæði sem er heimili Maui höfrungsins.

Fyrir minna en viku síðan hvatti Alþjóðlega hvalanefndin yfirvöld í landinu til þess að gera meira í því skyni að bjarga dýrinu sem er í útrýmingahættu.

Maui höfrungurinn er sá sjaldgæfasti í heiminum, áætlað er að einungis 55 slíkir séu eftir í heiminum og þeir finnast aðeins við Nýja Sjáland.

Ráðherra orkumála í Nýja Sjálandi segist ekki hafa áhyggjur af því að olíuleitin hafi áhrif á dýralífið á svæðinu. Hann telur mögulegt að ná jafnvægi milli olíuleitarinnar og þess að vernda höfrungana.

Alþjóðlega hvalanefndin birti í síðustu viku skýrslu þar sem kemur fram að yfirvöldum í landinu hafi ekki tekist að koma í veg fyrir fækkun Maui höfrungsins.

„Ríkisstjórnin ætti að hætta að láta skammtíma hagnað nokkurra námufyrirtækja ganga framar þúsundum íbúa Nýja Sjálands sem elska Maui höfrunginn og vilja vernda hann,“ sagði leiðtogi Grænna í Nýja Sjálandi, Russel Norman. Hann segir að samkvæmt vísindamönnum skaði jarðbylgjurannsóknir heyrn höfrungana og gæti þvingað þá til þess að synda að óöruggari svæðum. Þar gætu þeir frekar flækst í fiskinet.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×