Enski boltinn

Rodgers: Manchester City var með besta liðið í fyrra

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Rodgers og Daniel Sturridge.
Rodgers og Daniel Sturridge. Vísir/Getty
Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, telur að Manchester City hafi átt titilinn skilið eftir að hafa skotist fram úr Liverpool á lokametrum ensku úrvalsdeildarinnar.

Liðin mætast í annarri umferð ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld en bæði lið unnu sigra í fyrstu umferð.

Fæstir áttu von á því að Liverpool gæti barist um enska titilinn á síðasta tímabili en liðið kom heldur betur á óvart og barðist um titilinn allt til seinustu umferðarinnar. Tap gegn Chelsea og jafntefli gegn Crystal Palace varð liðinu hinsvegar að falli að lokum.

„Við vorum í dauðafæri á að vinna titilinn en það tókst ekki og ég get ekki kvartað. Eftir 38 leiki var Manchester City besta liðið í deildinni eins og taflan sagði til,“ sagði Rodgers um lið Manchester City en Daniel Sturridge snýr aftur á sinn gamla heimavöll í kvöld.

„Þegar við gengum frá kaupunum á Daniel þá gerði fólk mikið úr vandamálunum sem áttu að fylgja honum. Hann hefur hinsvegar gert lítið annað en að skora síðan hann kom hingað, 36 mörk í 50 leikjum er frábær árangur og hann hefur allt til þess að vera heimsklassa framherji.“

Leikur Manchester City og Liverpool verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 og Stöð 2 Sport 2 HD í kvöld en útsending hefst kl. 18.50.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×