Erlent

Stórslasaði dómara sem ætlaði að gefa honum rautt spjald

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Baseel Saad gæti átt yfir höfði sér tíu ára fangelsisdóm.
Baseel Saad gæti átt yfir höfði sér tíu ára fangelsisdóm.
Knattspyrnudómari frá Detroit í Bandaríkjunum liggur þungt haldinn á spítala eftir að leikmaður, sem var ósáttur með dóm, kýldi hann. Dómarinn ætlaði að sýna leikmanninum, sem heitir Baseel Saad, rauða spjaldið í leik sem var hluti af deildarkeppni fyrir þrjátíu ára og eldri og fór fram á sunnudaginn.

Baseel Saad flúði vettvang, en lögreglan í Michigan-fylki náði honum skömmu seinna og hefur hann verið ákærður fyrir hættulega líkamsárás og gæti átt yfir höfði sér tíu ára fangelsi.

„Þegar dómarinn fór í vasann og ætlaði að ná í rauða spjaldið kýldi Saad hann,“ útskýrði Joe Consenza fyrir bandarískum fjölmiðlum. Consenza var andstæðingur Saad í leiknum.

„Hann hitti hann í kjálkann og hálsinn, einhvernveginn. Dómarinn rotaðist gjörsamlega. Féll bara rotaður aftur fyrir sig. Þetta er eitthvað það hryllilegasta sem ég hef séð,“ bætti Consenza við.

Þegar Saad flúði tóku andstæðingar hans myndir af bílnum sem hann var í. Vinur Saad, sem var undir stýri, var einnig handtekinn fyrir að aðstoða mann við að flýja af vettvangi.

Liði Saad hefur verið vikið úr keppni. Um áhugamannadeild er að ræða fyrir þrjátíu ára og eldri. Örfáir áhorfendur voru á leiknum.

Hér að neðan má sjá sjónvarpsfrétt um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×