Erlent

Um 8.800 hús á Gasa algerlega eyðilögð

Atli Ísleifsson skrifar
Eyðileggingin á Gasaströndinni er gríðarleg.
Eyðileggingin á Gasaströndinni er gríðarleg. Vísir/AFP
Yfirstandandi hernaðaraðgerð Ísraela er sú sem valdið hefur mestum skemmdum á byggingum á Gasaströndinni nokkurn tímann. Þetta kemur fram í rannsókn á vegum Sameinuðu þjóðanna sem farið var í þegar vopnahlé stóð yfir um viku.

Aðgerð Ísraelshers hófst þann 8. júlí og hafa 8.800 hús ýmist eyðilagst algerlega í loftárásum eða þá eyðilagst þannig að nauðsynlegt sé að rífa þau. Viðgerðir eru nauðsynlegar á 7.900 húsum sé ætlunin að búa í þeim á ný, en um 100 þúsund Palestínumenn eru nú án heimilis vegna árásanna.

Í frétt norska ríkissjónvarpsins segir að 5.600 hús hafi orðið fyrir skemmdum, en ekki svo miklum að ómögulegt sé að búa í þeim á meðan viðgerðir standi yfir. Þá hafa minni skemmdir orðið á 33.500 húsum.

Í síðustu stóru hernaðaraðgerð Ísraela, sem stóð yfir á árunum 2008 til 2009, eyðilögðust 6.400 hús. Því sé eyðilegging nú meiri en þá. Alls hafa um tvö þúsund manns fallið í loft- og eldflaugaárásum Ísraela og Hamas-liða síðustu mánuði, þar af 1.900 Palestínumenn.

Um 1,8 milljónir manna búa nú á Gasaströndinni sem er um 40 kílómetrar að lengd og tíu að breidd. Að meðaltali búa því um 4.505 manns á sérhvern ferkílómetra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×