Erlent

400 ára gömul kenning Keplers sönnuð

Atli Ísleifsson skrifar
Kepler varpaði fyrst fram kenningunni árið 1611.
Kepler varpaði fyrst fram kenningunni árið 1611. Vísir/Getty
Kenning Johannesar Keplers um hvernig best sé að stafla kúlulaga hlutum hefur nú verið sönnuð. Þýski vísindamaðurinn Kepler fullyrti árið 1611 að skilvirkast væri að stafla þeim í píramída en gat sjálfur aldrei sannað það, ekki frekar en nokkur annar þar til nú.

Menn hafa lengi raðað kúlulaga hlutum líkt og fallbyssukúlum og ávöxtum í píramída og hafa stærðfræðingar lengi reynt að sanna kenninguna um að þetta sé skilvirkasta leiðin til að raða slíkum hlutum.

Árið 1998 kynnti Thomas Hales við Pittsburgh-háskóla útreikninga sína sem hann sagði sanna kenningu Keplers. Tólf stærðfræðingar fóru þá yfir 300 síðna útreikninga Hales og bentu á að sönnunin væri einungis 99 prósent rétt.

Í frétt New Scientist segir að frá árinu 2003 hafi Hales fundið sig knúinn til að leysa málið og á sunnudaginn kynnti hann svo nýjan hugbúnað sem endanlega sannaði kenningu Keplers – að skilvirkast sé að raða appelsínum í píramída.

Hales segist finna fyrir gríðarlegum létti eftir að hafa kynnt niðurstöður sínar. „Mér líður skyndilega tíu árum yngri.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×