Innlent

Fullorðnir mega tjalda í fylgd með fullorðnum

Stefán Ó. Jónsson og Sveinn Arnarsson skrifar
Frá Mærudögum
Frá Mærudögum VÍSIR/ÖRLYGUR
Ákvörðun forráðamanna Mærudaga á Húsavík um að einstaklingum yngri en 21 árs verði vísað frá tjaldstæðinu í bænum hefur vakið mikið umtal eftir að tilkynning þess efnis var birt á Facebook-síðu hátíðarinnar í gær.

Allir þeir sem ekki hafa náð 21 árs aldri eða eru á 21. aldursári mega því ekki tjalda á hátíðinni nema í fylgd með forráðamönnum en alls verða þrjú tjaldstæði í boði á Mærudögum; „Ungmennatjaldsvæði“ fyrir 21 til 30 ára, og svo tvö „fjölskyldutjaldstæði“ fyrir 30 ára og eldri.

Einar Gíslason, einn skipuleggjanda Mærudaga á Húsavík telur aldurstakmarkið eiga sér eðlilegar skýringar. „Það eru nokkrar ástæður fyrir því að við takmörkum aðgengi að tjaldsvæðinu og setjum 21 árs aldurstakmark. Fyrir það fyrsta hefur umgengni á tjaldsvæðinu síðustu árin verið stórlega ábótavant, og sérstaklega á unglingatjaldstæðinu sem við vorum með. Þessi umgengni unga fólksins var afar slæm og varpaði skugga á bæjarhátíðina.“

Einnig segir Einar að skreytingar bæjarbúa hafi verið eyðilagðar. „Það er til siðs að bæjarbúar skreyti götur og garða á Mærudögum og Húsavík lítur oft á tíðum glæsilega út. Síðan hefur það gerst ítrekað að skreytingarnar hafa verið eyðilagðar eða hluta af þeim stolið. Þetta hefur sérstaklega gerst á milli tjaldsvæðisins og svæðisisns þar sem skemmtanir fara fram.“

Einar telur fréttaumfjöllun um mikla ölvun unglinga síðustu ár hafa haft mikil áhrif á þessa ákvörðun að setja aldurstakmark á tjaldsvæðið. „Fréttir hafa varpað skugga á annars rólega og skemmtilega bæjarhátíð okkar Húsvíkinga. Mikil ölvun hefur fylgt þessu unga fólki og hún hefur sett svip sinn á hátíðina. Við tókum þessa ákvörðun að gefinni reynslu síðustu þriggja ára. Ölvun og hávaði hafa mikið truflað hátíðargesti eftir miðnætti, föstudags og laugardagskvöld. Við höfum einnig reynslu annars staðar frá, þar sem aldurstakmörk hafa gert góðan árangur líkt og á írskum dögum á Akranesi svo dæmi sé tekið.“

Áhyggjurnar af þessu hafa komið fram á íbúafundum þar sem menn hafa viljað stemma stigu við unglingadrykkju í bænum. Miklar óspektir hafa verið viðloðandi tjaldsvæðinu og því var það ákvörðun Húsavíkurstofu, sem rekur tjaldsvæðið að hækka aldurstakmarkið.

Facebook-færslu Mærudaga má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×