Erlent

Byrjaði hópslagsmál á leikskólahátíð

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Lögreglan í Ohio leitar nú Walker.
Lögreglan í Ohio leitar nú Walker.
Lögreglan í Ohio leitar nú manns sem er grunaður um að hafa ráðist á annan mann við útskrift fimm ára barna úr leikskóla. Árásin átti sér stað í matsal leikskólans og í kjölfar hennar hófust hópslagsmál og telur lögreglan að um tuttugu manns hafi tekið þátt í þeim.

Maðurinn, sem heitir Raymond Walker, er þrjátíu og þriggja ára og var staddur í útskriftarathöfn í leikskólanum í bænum Mt. Healthy, í grennd Cincinnatiborgar. Í athöfninni sá hann mann að nafni Domique Garnett, en þeir þekkjast frá fyrri tíð og er talið að Walker hafi átt eitthvað sökótt við hann. Walker gekk að Garnett og sló hann í andlitið inni í matsal leikskólans. Margir gengu á milli mannanna tveggja og endaði það í hópslagsmálum að sögn lögreglunnar í Ohio.

Walker gæti átt yfir höfði sér ákæru fyrir grófa líkamsárás og fyrir að vera upphafsmaður að hópslagsmálunum, en sérstök lög ná yfir það. Grunnskóla, í sömu byggingu og leikskólinn er í, var lokað á meðan slagurinn átti sér stað, lögreglan vildi forða skólabörnum frá því að lenda á milli þeirra sem slógust.

Lori Handler, yfirkennari í leikskólanum, var mjög brugðið þegar blaðamenn höfðu samband við hana í gær. „Það var hrikalegt fyrir fimm ára börnin mín að þurfa að horfa upp á þetta. Það er hreinlega sorglegt að fullorðið fólk geti ekki hagað sér við þessar aðstæður.“

Hún sagði það vera lán í óláni að útskriftarathöfninni hafi verið lokið þegar slagsmálin brutust út. „Við ætlum að fara í þetta mál af fullri hörku. Við ætlum að kæra þá sem komu að málinu, bæði fyrir líkamsárásina og fyrir þetta óeirðarástand,“ bætir Handler við.

Lögreglan hefur áður þurft að hafa afskipti af Walker, hann hefur verið dæmdur fyrir alvarleg umferðarlagabrot og sat í fangelsi í níu mánuði. Hann reyndi að flýja þegar lögreglumenn reyndu að stöðva hann og endaði eltingaleikurinn þegar Walker keyrði á tré með þeim afleiðingum að kona sem var með honum í bíl slasaðist.

Lögreglan leitar nú Walker og er lýst eftir honum í fjölmiðlum í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×