Erlent

Ólétt kona fékk marijúna ofan á borgara frá McDonalds

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Málið hefur vakið mikla athygli í Bandaríkjunum
Málið hefur vakið mikla athygli í Bandaríkjunum
Lögreglan í Iowa í Bandaríkjunum hóf rannsókn á óvenjulegum glæp í síðustu viku, þegar par tilkynnti að það hefði fundið marijúana á hamborgara sem það keypti frá McDonalds.

„Ég hef aldrei þurft að kafa svona djúpt ofan í ostborgara í neinni rannsókn á mínum ferli,“ segir Jason Bell, yfirmaður lögreglunnar í bænum Ottumwa í Iowafylki.

Parið segist hafa keypt tvöfaldan ostborgara og tekið hann með sér heim. Þegar konan ætlaði að gæða sér á borgaranum tók hún eftir óvenjulegu grænu áleggi á honum. Parið grunaði strax að þetta væri marijúana. Þau tilkynntu málið til lögreglunnar og er rannsókn á málinu hafin. Starfsfólkið í því útibúi McDonalds sem seldi borgarann með þessu óvenjulega áleggi var yfirheyrt. Eiturlyf fundust á einum starfsmanni, en að sögn lögreglumannsins Bell er ekki víst að sá sé sekur í málinu.

Lögreglan rannsakar alla króka og kima málsins og hefur meðal annars beint sjónum sínum að parinu sem tilkynnti um glæpinn.

„Þetta eru alvarlegar ásakanir gegn svona fyrirtæki. Við viljum ganga úr skugga um að við komumst að réttri niðurstöðu,“ segir Bell í samtali við KCCI-fréttastofuna í Iowa.

Lögreglan hefur sent sýni úr borgaranum á rannsóknarstofu og mun það væntanlega taka um mánuð að fá niðurstöðu úr þeirri rannsókn. Lögreglan vill ganga úr skugga um að þetta sé í raun marijúna sem hafi verið á borgaranum.

Hefðbundnir tvöfaldir ostborgarar frá McDonalds eru með tveimur ostneiðum, súrum gúrkum, lauk, tómatsósu og sinnepi.

Hér að neðan má sjá frétt frá sjónvarpsstöðinni KCCI um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×