Erlent

Söng Blackbird fyrir deyjandi son sinn

Atli Ísleifsson skrifar
Vinur Picco birti myndband af Picco þar sem hann syngur Bítlalagið Blackbird fyrir son sinn sem var þá haldið í öndunarkassa.
Vinur Picco birti myndband af Picco þar sem hann syngur Bítlalagið Blackbird fyrir son sinn sem var þá haldið í öndunarkassa.
Bandaríkjamaðurinn Chris Picco fór frá því að vera eiginmaður og tilvonandi faðir í að vera maður án fjölskyldu á einungis fjórum dögum.

Eiginkona hans, Ashley, lést þann 8. nóvember síðastliðinn, einungis nokkrum klukkustundum eftir að læknar framkvæmdu neyðarkeisaraskurð, en drengurinn Lennon James lést svo þremur dögum síðar.

Í frétt CNN segir að Lennon James hafi komið í heiminn þremur mánuðum fyrir tímann eftir að vandamál komu upp á meðgöngunni.

Picco hefur stofnað sérstakan styrktarsjóð í minningu konu sinnar og í færslum hans á heimasíðu sjóðsins sagði hann það vera „ómögulegt að taka saman það sem hefði gerst síðustu tvo daga.“

Færsla Picco af heimasíðu hans þar sem hann greinir frá andláti sonar síns.
Picco sagði eiginkonu sína, besta vin og barnsmóður hafa látist skömmu eftir aðgerð. 

„Ég mun syrgja þennan missi það sem ég á eftir ólifað, en ég veit að nú myndi hún vilja að ég einbeitti mér að barninu Lennon James Picco.“ 

Í frétt CNN segir að Lennon hafi látist í örmum föður síns seint á þriðjudagskvöldið. 

Vinur Picco birti svo myndband af Picco á miðvikudag þar sem hann syngur Bítlalagið Blackbird fyrir son sinn sem var þá haldið í öndunarkassa.

„Ashley fann oft fyrir að Lennon hreyfði sig í takt við tónlist, svo ég kom með gítarinn minn og hélt fyrir hann litla tónleika,“ sagði Picco.

Í frétt CNN kemur fram að talsmaður segi Picco vilja segja sögu sína en að hann þurfi nú tíma með fjölskyldu og vinum. Sérstök minningarstund verður haldin í kirkju Picco í bænum Loma Linda í Kaliforníuríki á laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×