Skyndibitastaður McDonald's sem fyrstur opnaði í Kaupmannahöfn verður lokað innan skamms.
Staðurinn er á Vesterbrogade, nærri Tívolí, og opnaði árið 1981. Ástæða lokunarinnar er sú að staðurinn og húsnæðið stenst ekki lengur kröfur skyndibitakeðjunnar.
Í frétt Ekstrabladet segir að einnig standi til að loka McDonald‘s-staðnum á Amagerbrogade. Þá segir að starfsmönnum verði boðin vinna á öðrum skyndibitastöðum keðjunnar.
Stöðunum á Vesterbrogade og Amagerbrogade verður lokað um næstu mánaðarmót en þá verða eftir 87 McDonald´s-staðir í Danmörku.
