Erlent

Norður-Kórea eins og þú hefur aldrei séð hana áður

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Iðandi líf í neðanjarðarlest í höfuðborginni.
Iðandi líf í neðanjarðarlest í höfuðborginni. Mynd/skjáskot
Það má með sanni segja að Norður-Kórea sé eitt einangraðasta land heims og hefur það löngum vakið áhuga forvitinna ferðamanna. Talið er að einungis um fjögur til sex þúsund ferðamenn fái að sækja landið heim á ári hverju og norður-kóresk stjórnvöld takmarka gífurlega allt upplýsingaflæði til og frá landinu.

Tveir kvikmyndagerðarmenn, JT Singh og Rob Whitworth, fengu einstakt tækifæri til að mynda daglegt líf í höfuðborginni Pjongjang og birtu þeir afrakstur vinnu sinnar á netinu í vikunni. Myndbandið má sjá hér neðst í fréttinni.

Myndina gerðu þeir í samstarfi við helstu ferðaskrifstofu Norður-Kóreu, Koryo Group, og fengu þeir ströng fyrirmæli um hvað mætti og hvað mætti ekki fanga á filmu. Til að mynda var kvikmyndagerðarmönnunum óheimilt að mynda byggingasvæði og starfsmenn Norður-Kóreska hersins en þeir bera þó ferðaskrifstofunni vel söguna.

„Þökk sé víðtækri reynslu þeirra af umsjón með ferðaþjónustu Norður-Kóreu frá árinu 1993 fengum við áður óþekkt aðgengi að Pjongjang. Við erum þakklátir starfsmönnum Koryo fyrir ógleymanlega upplifun,“ segir í kynningarefni myndbandsins. Þeir taka þó fram að þeir séu engir sérstakir stuðningsmenn norður-kóreskra stjórnvalda þrátt fyrir að samstarfið þeirra við fulltrúa stjórnarflokksins hafi verið gott.

Myndskeiðið hér að neðan er töfrum líkast og veitir áhugaverða en jafnframt lifandi innsýn í heim sem fáir fá að kynnast af fyrstu hendi.

Rétt er þó að taka fram að lífsgæði íbúa höfuðborgarinnar eru ívið meiri en líf annarra íbúa Norður-Kóreu og því mætti færa rök fyrir því að myndskeiðið birti glansmynd af daglegu lífi hins „venjulega“ Norður-Kóreubúa.

Landið hefur þó opnast mikið fyrir erlendum menningarstraumum á liðnum árum og færist landið æ meira inn í framtíðina. Farsímaeign landsmanna hefur stóraukist, túristum fjölgar með hverju árinu og eru norður-kóreskir íþróttagarpar jafnvel farnir að hlaupa maraþon sér til ánægju og yndisauka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×