Erlent

Obama gefur þinginu 90 daga frest

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Uppljóstranir Snowdens sviptu hulunni af stórfelldri eftirlitsstarfsemi bandarískra njósnastofnana.
Uppljóstranir Snowdens sviptu hulunni af stórfelldri eftirlitsstarfsemi bandarískra njósnastofnana. Nordicphotos/AFP
Barack Obama Bandaríkjaforseti kynnti í gær hugmyndir sínar um breytt fyrirkomulag á eftirliti njósnastofnana með símtölum fólks.

Uppljóstranir Edwards Snowdens á síðasta ári sviptu hulunni af því að undanfarin ár hefur Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna safnað saman í stórum stíl upplýsingum um símtöl einstaklinga. Þessar upplýsingar hafa verið geymdar hjá stofnuninni í fimm ár.

Obama vill breyta þessu þannig að Þjóðaröryggisstofnunin safni ekki saman þessum upplýsingum heldur verði símafyrirtækjum gert skylt að geyma þær, en ekki í fimm ár heldur í 18 mánuði.

Hann hefur gefið Bandaríkjaþingi frest til 1. júní til að útfæra þessar breytingar í lagafrumvarpi.

Patrick Leahy, formaður dómsmálanefndar Bandaríkjaþings, hefur sagt að Obama hefði í sjálfu sér getað ákveðið upp á sitt einsdæmi að stöðva þessa upplýsingasöfnun án tafar. Þess í stað ákvað hann að óska eftir því við dómstóla að framlengja um 90 daga þá heimild sem Þjóðaröryggisstofnunin hefur haft til þess að safna saman upplýsingunum.

Obama gæti síðan haldið áfram að óska eftir 90 daga framlengingu aftur og aftur, en þó ekki lengur en til 1. júní á næsta ári, en þá renna út þau lög sem hafa eftirlitsheimildirnar eru byggðar á.

Margir hafa talið líklegast að engu yrði breytt fyrr en þau lög renna út, og þótt Obama hafi nú farið fram á það við þingið að breytt fyrirkomulag verði samþykkt fyrir júníbyrjun á þessu ári, þá er allsendis óvíst hvort þinginu takist að ná samkomulagi um málið fyrir þann tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×