Spænskir fjölmiðlar greina frá því að Alfreð Finnbogason sé nú í San Sebastian á Spáni þar sem hann gengst undir læknisskoðun hjá Real Sociedad.
Kaup spænska liðsins á Alfreð hafa legið í loftinu síðustu vikur en talið er að félagið greiði allt að átta milljónir evra fyrir kappann, um 1,2 milljarða króna, og að tvær milljónir til viðbótar í árangurstengdar greiðslur.
Vísir greindi frá því í gær að Alfreð hafi farið utan í gærmorgun og má því búast við því að gengið verði frá samningum á morgun.
El Diario Vasco fullyrðir að hann muni skrifa undir fimm ára samning við Real Sociedad og þá segir Marca að Alfreð muni mögulega taka þátt í sinni fyrstu æfingu á morgun en undirbúningstímabilið hefst með formlegum hætti í dag.
Alfreð varð markahæsti leikmaður hollensku úrvalsdeildarinnar í vetur og skoraði 29 mörk fyrir Heerenveen, þar sem hann hefur verið undanfarin tvö ár.
