Erlent

Héldu einhverfum syni föngnum í búri

Atli Ísleifsson skrifar
Fjölskyldumeðlimir gáfu misvísandi svör um þann tíma sem drengurinn var neyddur til að dvelja í búrinu.
Fjölskyldumeðlimir gáfu misvísandi svör um þann tíma sem drengurinn var neyddur til að dvelja í búrinu. Vísir/Getty
Lögregla í Kaliforníu hefur handtekið par sem grunað er um að hafa haldið ellefu ára einhverfum syni sínum föngnum í búri á heimili sínu. Upp komst um málið eftir að lögreglu í Anaheim barst nafnlaus ábending og fannst stálbúrið í einu herbergjanna á heimili fjölskyldunnar.

Búrið sem um ræðir var 150 sentimetrar á lengd, 120 á breidd og 180 á hæð og svipaði til stórs hundabúrs. Drengurinn var ekki inni í búrinu þegar lögreglan knúði dyra. Fjölskyldumeðlimir gáfu misvísandi svör um þann tíma sem drengurinn var neyddur til að dvelja í búrinu - allt frá nokkrum klukkutímum og til heilu daganna í senn. Dýnu hafði verið komið fyrir í búrinu.

Talsmaður lögreglu segir að foreldrarnir virðast hafa ákveðið að grípa til þessa ráðs eftir því sem strákurinn eltist og ofbeldisatvikum og -köstum fór fjölgandi. Í frétt Sky segir að foreldrar stráksins, Loi Vu og Tracy Le, séu nú í haldi lögreglu vegna gruns um frelsissviptingu og brot á barnalögum. Stráknum og tveimur yngri systkinum hans hefur verið komið fyrir í vörslu barnaverndaryfirvalda á meðan rannsókn stendur yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×