Enski boltinn

Messan: Hjörvar finnur Diego Forlan lykt af Falcao

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Radamel Falcao.
Radamel Falcao. Vísir/Getty
Kólumbíski framherjinn Radamel Falcao var tekinn fyrir hjá Gumma Ben og félögum í Messunni í gær en þessi framherji Manchester United hefur ekki byrjað vel í ensku úrvalsdeildinni eftir að hafa raðað mörkum í Portúgal, á Spáni og í Frakklandi.

Guðmundur Benediktsson benti á það í upphafi umfjöllunar Messunnar um Radamel Falcao að það er bara mánuður síðan að knattspyrnustjórinn Louis van Gaal talaði um að hann væri bara tuttugu mínútna maður.

„Hann er allur eitthvað svo máttlaus og það vantar skref í hann, aukametra eða eitthvað," sagði Hjörvar Hafliðason og um leið sést myndband af því þegar Falcao liggur í grasinu eftir lítið högg.

„Hann er líka eini maðurinn á vellinum með vettlinga ekki að það skipti öllu máli," bætti Hjörvar við í léttum tón.

„Mér fannst hann aldrei vera líklegur. Það er Diego Forlan lykt af þessu og hann er bara ekki nógu hraustur í þetta," sagði Hjörvar og Messan sýndi nokkur myndbrot með Radamel Falcao í Tottenham-leiknum.

Diego Forlan skoraði bara 10 mörk í 63 leikjum með Manchester United en raðaði síðan inn mörkum með Atlético Madrid og landsliði Úrúgvæ.

Ólafur H. Kristjánsson var gestur strákanna í Messu gærkvöldsins og hann sló á létta strengi.

„Ég held að Messan þurfi að senda Falcao ummæli Hjörvars um De Gea og það er ennþá von fyrir hann," sagði Ólafur en Hjörvar hefur verið duglegur að gagnrýna markvörðinn David de Gea í gegnum tíðina. De Gea hefur átt frábært tímabil með United-liðinu.

Það er hægt að sjá allt innslag Messunnar um Radamel Falcao hér fyrir neðan eða með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×