Enski boltinn

Áttundi deildarsigur City í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
City er á miklu skriði þessa dagana.
City er á miklu skriði þessa dagana. vísir/getty
Það tók Manchester City aðeins rúman hálftíma að klára West Bromwich Albion á The Hawthorns í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Eftir 34 mínútur var staðan orðin 0-3, Englandsmeisturunum í vil og heimamenn voru aldrei líklegir til að koma til baka. Fernando skoraði fyrsta markið á 8. mínútu eftir hræðileg mistök Bens Foster í marki West Brom.

Fimm mínútum síðar braut Joleon Lescott, fyrrverandi leikmaður City, á David Silva innan vítateigs. Yaya Toure fór á punktinn og skoraði sitt 6. deildarmark í vetur.

David Silva skoraði svo þriðja markið á 34. mínútu eftir sendingu frá landa sínum, Jesus Navas.

Brown Ideye náði að minnka muninn þremur mínútum fyrir leikslok, en fleiri urðu mörkin ekki. Lokatölur 1-3, City í vil sem minnkaði forskot Chelsea á toppi deildarinnar aftur niður í þrjú stig. City hefur nú unnið átta deildarleiki í röð og Englandsmeistararnir virðast til alls líklegir.

West Brom tapaði sínum öðrum leik í röð, en liðið er í 15. sæti, tveimur stigum frá fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×