Enski boltinn

Pellegrini er ósáttur að missa Toure í Afríkukeppnina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pellegrini og Toure með Englandsmeistarabikarinn.
Pellegrini og Toure með Englandsmeistarabikarinn. vísir/getty
Manuel Pellegrini, knattspyrnustjóri Manchester City, er ósáttur með að missa Yaya Touré í janúar og hluta af febrúar, þegar miðjumaðurinn sterki spilar með landsliði Fílabeinsstrandarinnar í Afríkukeppninni sem fer fram í Miðbaugs-Gíneu.

„Er ég ánægður? Nei. Maður vill alltaf hafa sína bestu menn, en svona er þetta,“ sagði Pellegrini.

„Hann fer einhvern tímann milli 5. og 10. janúar, ég er ekki alveg viss hvenær. Hann mun sennilega spila leikinn í bikarkeppninni (gegn Sheffield Wednesday 4. janúar) og fara svo.

„Bikarleikurinn verður líklega hans síðasti leikur áður en hann fer,“ bætti Pellegrini við en hann vonast eftir að framlengja lánssamning Franks Lampard vegna brotthvarfs Toures.

Lánssamningur Lampards við Englandsmeistaranna rennur út um áramótin, en Pellegrini kveðst bjartsýnn á að halda miðjumanninum þrautreynda lengur hjá City.

„Ég er bjartsýnn á að hann verði áfram hér, en ég get ekki sagt það með fullri vissu, því þetta veltur ekki bara á mér,“ sagði Chile-maðurinn, en Lampard er á láni frá bandaríska liðinu New York City.

Manchester City sækir West Brom heim á eftir. Leikurinn hefst klukkan 15:00 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3. Einnig verður hægt að fylgjast með leiknum í beinni textalýsingu á Vísi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×