Enski boltinn

Jóhann Berg bjargaði stigi fyrir tíu leikmenn Charlton

Tómas Þór Þórðarson skrifar
vísir/getty
Íslendingaliðin Charlton og Cardiff skildu jöfn, 1-1, í ensku B-deildinni í knattspyrnu í dag og færast upp í níunda og tíunda sæti deildarinnar.

Jóhann Berg Guðmundsson og Aron Einar Gunnarsson voru báðir í byrjunarliðunum í dag, en gestirnir frá Cardiff tóku forystuna með marki Tom Adeyemi á 12. mínútu.

Heimamenn í Charlton misstu leikmann af velli á 33. mínútu með rautt spjald og spiluðu klukkutíma manni færri. Þrátt fyrir það tókst liðinu að skora jöfnunarmark.

Það gerði Jóhann Berg með fallegu skoti á 88. mínútu, en Jóhann hafði átt sjö tilraunir að marki þar til hann kom boltanum loks í netið. Lokatölur, 1-1.

Bæði lið þurftu á sigri að halda, en Cardiff er án sigurs í síðustu fjórum leikjum sínum og Charlton hefur nú ekki unnið í síðustu sex leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×