Enski boltinn

Hazard og Costa sáu um Hull | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hazard skallar fyrirgjöf Oscars í netið.
Hazard skallar fyrirgjöf Oscars í netið. Vísir/Getty
Chelsea komst aftur á sigurbraut þegar liðið bar sigurorð af Hull City með tveimur mörkum gegn engu á Stamford Bridge í dag.

Toppliðið byrjaði leikinn af miklum krafti og leikmenn Hull náðu varla sendingu á milli sín.

Það kom því lítið á óvart þegar Chelsea náði forystunni á 7. mínútu. Eden Hazard skallaði þá fyrirgjöf Oscars frá vinstri í netið.

Leikurinn jafnaðist eftir því sem leið á hálfleikinn, þótt gestirnir hafi ekki náð að ógna marki Chelsea að neinu ráði.

Staðan var 1-0 í leikhléi, en heimamenn sluppu vel í byrjun seinni hálfleiks þegar skot Jakes Livermore fór rétt framhjá.

Tom Huddlestone gerði sig svo sekan um dómgreindarbrest þegar hann traðkaði á Felipe Luis, vinstri bakverði Chelsea, eftir um klukkutíma leik. Chris Foy átti engra annarra kosta völ en að vísa miðjumanninum af velli sem og hann gerði.

Skömmu síðar skoraði Diego Costa annað mark Chelsea eftir sendingu frá Hazard. Þetta var 12. deildarmark Spánverjans í vetur.

Fleiri urðu mörkin ekki og lærisveinar José Mourinho fögnuðu sínum 12. sigri í deildinni í vetur.

Chelsea 1-0 Hull



Fleiri fréttir

Sjá meira


×