Enski boltinn

Ferdinand: Sé ekki eftir því að hafa farið til QPR

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ferdinand hefur þurft að verma varamannabekkinn að undanförnu.
Ferdinand hefur þurft að verma varamannabekkinn að undanförnu. vísir/getty
Rio Ferdinand segist ekki sjá eftir vistaskiptunum til QPR þótt hann hafi þurft að verma varamannabekkinn að undanförnu.

„Enginn alvöru fótboltamaður er sáttur við að sitja á bekknum. Svo ég væri að ljúga ef ég segðist vera fullkomlega sáttur með að hafa ekki komist í liðið að undanförnu,“ sagði hinn 36 ára gamli Ferdinand við The Sun.

Hann viðurkennir að það hafi verið viðbrigði að fara frá jafn sigursælu liði og Manchester United og til liðs sem berst fyrir lífi sínu í ensku úrvalsdeildinni.

„Þegar þú hefur notið velgengni með jafn stóru liði og Manchester United í meira en áratug, þá er ekki hægt að horfa framhjá því að núverandi aðstæður eru skref niður á við,“ sagði Ferdinand ennfremur og bætti við:

„En ekki halda að ég sjái eftir því að hafa farið til QPR - því ég geri það ekki. Ég vissi hvað ég var að fara út í og vissi að ég væri að fara til liðs sem yrði í neðri hlutanum.

„Ég vissi einnig að ég myndi ekki spila hvern einasta leik. Ég er raunsær, því það er ekki að fara gerast þegar þú ert 36 ára.“

Ferdinand, sem kom til Lundúnaliðsins á frjálsri sölu frá Manchester United í sumar, hefur leikið sjö leiki, alla í byrjunarliði, fyrir QPR á tímabilinu, en liðið situr í 18. og þriðja neðsta sæti úrvalsdeildarinnar.

Lærisveinar Harrys Redknapp mæta Everton á morgun. Leikurinn hefst klukkan 20:00 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×