Enski boltinn

Rodgers óttast ekki að missa Sterling

Raheem Sterling.
Raheem Sterling. vísir/getty
Það er mikið rætt og ritað um framtíð Raheem Sterling hjá Liverpool en ekki hefur gengið að fá leikmanninn unga til þess að skrifa undir nýjan samning.

Hinn tvítugi Sterling hefur slegið í gegn hjá Liverpool og hefur meðal annars verið orðaður við Real Madrid og FC Bayern síðustu misseri.

Liverpool réð illa við að missa Luis Suarez síðasta sumar og það væri mikið högg fyrir félagið að missa Sterling sem hefur allt til að bera að verða stórstjarna.

„Vonandi fer hann ekki því við erum að reyna að byggja upp lið hérna," sagði Brendan Rodgers, stjóri Liverpool.

„Vð vorum á réttri leið síðustu tvö ár en höfum farið aðeins af sporinu núna eftir að hafa misst menn og þurft að bæta við okkur. Hann er einn af okkar fyrirmyndarleikmönnum og í fararbroddi af þeim leikmönnum sem hafa tekið mestum framförum hér. Hann fór úr því að vera unlingaliðsleikmaður í að vera einn af bestu ungu leikmönnum Evrópu.

„Ég efast ekki um að félagið muni gera allt til þess að landa nýjum samningi. Raheem er hamingjusamur hjá okkur og elskar að vera leikmaður Liverpool. Ég er því frekar rólegur yfir þessu öllu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×