Erlent

Þjóðverjar harmi slegnir vegna dauða ungrar konu

Atli Ísleifsson skrifar
Árásin var gerð þann 15. nóvember síðastliðinn og komst hin 23 ára kennaranemi, Tugce Albayrak, aldrei til meðvitundar.
Árásin var gerð þann 15. nóvember síðastliðinn og komst hin 23 ára kennaranemi, Tugce Albayrak, aldrei til meðvitundar. Vísir/AFP
Þýskir fjölmiðlar hafa birt myndbandsupptöku þar sem sjá má hvernig maður slær til ungrar konu. Höggið reyndist banahögg. Tugce Albayrak hafði verið haldið sofandi í öndunarvél í tvær vikur en síðastliðinn föstudag var ákveðið að slökkva á öndunarvélinni, á 23 ára afmælisdegi Tugce, þar sem batahorfur voru engar.

Aðdragandi árásarinnar var sá að Tuqce gekk á milli árásarmannsins og tveggja kvenna sem hann hafði verið að áreita á bílaplani. Árásin var gerð á bílaplani fyrir utan skyndibitastað í bænum Offenbach, skammt frá Frankfurt síðla nætur. Tuqce komst aldrei til meðvitundar eftir höggið sem árásarmaðurinn veitti henni.

Málið hefur vakið gríðarlega athygli í Þýskalandi og hafa rúmlega 100 þúsund manns skorað á Joachim Glauck Þýskalandsforseta að veita Tugce heiðursorðu.

Gauck segist ætla að taka áskorunina til skoðunar, en í bréfi til fjölskyldu Tugce kveðst hann skelfingu lostinn vegna dauða hennar. Allir standi í þakkarskuld við hana.

„Hún verður ávallt fyrirmynd fyrir okkur öll og öll þjóðin syrgir hana.“

Þúsundir komu saman víðst vegar um Þýskaland um helgina til að minnast Tuqce sem var af tyrkneskum uppruna og stundaði kennaranám.

Vonast til að fleiri vitni gefi sig fram

Á myndbandinu sést hvernig maður reynir að halda aftur af hinum grunaða, átján ára manni, áður en sá síðarnefndi slær til Tugce sem fellur til jarðar. Þar liggur hún svo hreyfingarlaus innan um aðra nærstadda.

Lögregla vonast til þess að með birtingu myndbandsins muni fleiri vitni gefa sig fram og skýra frá því hvað gerðist. Einn hefur verið handtekinn vegna árásarinnar.

Til stendur að kryfja lík Tugce í dag til að skera úr um hvort það hafi verið hnefahöggið sjálft sem hafi rekið hana til dauða eða höggið þegar höfuðið lenti á götunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×