Enski boltinn

Er Gerrard enn nógu góður fyrir Liverpool?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Sparkspekingar í Englandi skiptast á skoðunum um stöðu fyriliðans Steven Gerrard hjá Liverpool. Hann á langan feril að baki með félaginu en hefur verið gagnrýndu fyrir frammistöðu sína á tímabilinu.

Gerrard var settur á bekkinn er Liverpool hafði betur gegn Stoke á laugardaginn, 1-0, en þá voru liðin sextán ár frá hans fyrsta leik fyrir félagið. Gerrard hefur aldrei spilað fyrir annað lið en Liverpool.

John Barnes, fyrrum leikmaður félagsins, telur að Gerrard hafi ýmislegt fram að færa. „Þegar hann er upp á sitt besta er hann enn nógu góður,“ sagði Barnes en viðurkennir þó að kappinn sé kominn yfir bestu ár ferilsins.

„Það vitum við allir enda kemur það fyrir alla. Það væri auðvelt að skilja ef hann væri hvíldur í liðum eins og Manchester City og Chelsea sem hafa nógu mikla breidd í sínum leikmannahópi. En Liverpool er ekki með slíka breidd og þrátt fyrir að Steven Gerrard sé ekki sá leikmaður sem hann eitt sinn var tel ég að hann sé enn afar mikilvægur fyrir félagið.“

Mark Lawrenson, sérfræðingur á BBC, telur að Gerrard sé á niðurleið á sínum ferli og að Brendan Rodgers, stjóri félagsins, sé sá fyrsti sem hefur tekið á því. „Ég tel að Liverpool spili betur þegar Gerrard er ekki í liðinu,“ sagði Lawrenson.

Samningur Gerrard við Liverpool rennur út í sumar en Brendan Rodgers staðfesti í vikunni að félagið hefði boðið honum nýjan samning.


Tengdar fréttir

Rodgers vissi ekki af afmælinu

Eftir 1-0 sigur Liverpool á Stoke City í gær sagðist Brendan Rodgers ekki hafa verið meðvitaður um að 16 ár væru liðin frá því Steven Gerrard lék sinn fyrsta leik fyrir félagið.

Carragher: Engir karlmenn og engir leiðtogar í Liverpool-liðinu

Jamie Carragher, fyrrum leikmaður Liverpool-liðsins gagnrýndi liðið harðlega eftir 3-1 tapið á móti Crystal Palace í gær en Liverpool-liðið hefur nú aðeins náð í eitt stig út úr síðustu fjórum deildarleikjum sínum.

Gerrard neitar sögusögnum um ósætti milli hans og Rodgers

Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, segir ekkert hæft í orðróminum um meint ósætti milli hans og knattspyrnustjórans Brendans Rodgers, en Gerrard byrjaði á varamannabekknum þegar Liverpool vann Stoke í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×