Enski boltinn

Agüero: Lampard lykilmaður í titilbaráttunni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Sergio Agüero, framherji Manchester City, hefur engan áhuga á að missa Frank Lampard á miðju tímabili en hann er í láni frá bandaríska MLS-liðinu New York City FC.

Lampard skoraði um helgina sitt fimmta mark fyrir City í ellefu leikjum er liðið hafði betur gegn Southampton, 3-0. „Hann er virkilega mikilvægur leikmaður fyrir okkur - lykilmaður,“ sagði Agüero við enska fjölmiðla.

„Skiptir engu hvort hann byrji eða komi inn á - hann er í lykilhlutverki í flestum þeim leikjum sem hann tekur þátt í.“

Þegar Lampard fór frá Chelsea í sumar samdi hann við New York City FC sem er systurfélag Manchester City. Nýtt tímabil í MLS-deildinni hefst í mars og var áætlað að Lampard færi í janúar til að hefja undirbúningstímabilið vestanhafs.

„Það væri frábært ef hann yrði áfram enda goðsögn í ensku úrvalsdeildinni. Það hefur verið mikil ánægja fyrir mig að spila með honum. Ég get nú alltaf sagt að ég hafi spilað með Frank Lampard.“

Forráðamenn City vilja halda Lampard lengur en upphaflega stóð til. „Þetta er undir þeim komið en ég held að það gæti riðið baggamuninn að halda honum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×