Enski boltinn

Pellegrini vill halda Lampard hjá Man City

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lampard á ferðinni í leik með Manchester City.
Lampard á ferðinni í leik með Manchester City. vísir/afp
Manuel Pellegrini, knattspyrnustjóri Manchester City, vill framlengja dvöl miðjumannsins Frank Lampard hjá félaginu.

Lampard er á láni hjá Englandsmeisturunum frá bandaríska liðinu New York City sem hann gekk til liðs við í sumar frá Chelsea.

Lánssamningurinn gildir fram í desember, en tímabilið vestanhafs byrjar ekki fyrr en í mars 2015.

„Frank er samningsbundinn New York og hann er á láni hjá okkur fram í desember,“ sagði Pellegrini.

„Þá munum við ræða við alla hlutaðeigandi og taka ákvörðun. Hann verður áfram ef allir aðilir eru þess samþykkir.

„Ég tala við Frank á hverjum degi og mér finnst hann spila betur með hverjum deginum. Ég er mjög ánægður með hans framlag.“

Pellegrini sagði einnig að það kæmi ekki til greina að selja argentínska framherjann Sergio Aguero sem hefur verið óstöðvandi það sem af er tímabili.

„City er ekki félag sem selur sína leikmenn. Þetta er félag sem vill kaupa góða leikmenn og bæta sig á hverju ári,“ sagði Pellegrini, en City mætir spútnikliði Southampton í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Leikurinn hefst klukkan 13:30 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2. Þá verður hægt að fylgjast með honum í beinni textalýsingu á Vísi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×